Afkoma íslensku bankanna verður tiltölulega góð í evrópskum samanburði. Þetta kemur fram í skýrslu sem Daiwa Securities sendi frá sér í gær. Líklegt er að tap íslensku bankanna vegna erfiðra markaðsaðstæðna á fjórða ársfjórðungi verði tiltölulega lítið borið saman við aðra evrópska banka. Í skýrslunni segir að hagnaður bankanna hafi minnkað en haldist vel jákvæður. Tap hafi aðallega stafað af niðurfærslu á lausafjáreign, en ekki markaðsviðskiptum.

Í skýrslunni segir að fyrir Glitni [ GLB ] og Landsbanka [ LAIS ] komi sér afar vel að hafa enga stöðu í bandarískum undirmálslánum og tilteknum flóknum fjármálagerningum, svokölluðum SIV og CDO. Kaupþing [ KAUP ] hafi þurft að færa meira niður, sem endurspegli meiri áhættutöku, en þær tölur hafi ekki verið mjög háar. Mikilvægara sé að bankinn hafi ákveðið að hætta við yfirtökuna á NIBC, sem sé jákvætt út frá skuldahliðinni. Daiwa Securities bendir á að eftir ákvörðunina hafi Fitch staðfest A-einkunn Kaupþings og hækkað horfurnar úr neikvæðum í stöðugar.

Lausafjárstaða bankanna er sögð stöðug í fyrirsjáanlegri framtíð. Allir bankarnir þrír hafi að fullu endurfjármagnað þau lán sem séu á gjalddaga í ár.