Sveitarfélagið Dalabyggð hyggst styðja við bakið á nemendum sem fara í háskólanám í leikskólakennarafræðum. Sveinn Pálsson sveitarstjóri segir að ákvörðun um þetta hafi verið tekin í sveitarstjórninni í ljósi þess að erfitt hafi reynst að fá menntað fólk til starfa á leikskólanum í Búðardal sem er deild í Auðarskóla. Þetta kemur fram í frétt á vef Samband íslenskra sveitafélaga .

Fjölgun hefur orðið á börnum á leikskólaaldri í Dalabyggð síðustu árin og einnig barna sem sækja leikskóla í Búðdardal úr sveitinni. Var það ástæðan fyrir því að nýbyggður leikskóli var fljótlega of lítill og viðbygging við hann tekin í notkun á síðasta ári.

Umræddur stuðningur sem Dalabyggð býður nemendum í leikskólafræðum er margháttaður en stefnt er að því að ná saman hópi sem gæti stundað námið og nemendur notið þannig stuðnings hvers annars. Nemendum stendur til boða laun í staðbundnum lotum og æfingakennslu í leikskólum, námsstyrki tvisvar á skólaárinu, aðgangur að tölvukerfum Auðarskóla og Office 365 sem og vinnu- og námsaðstöðu í skóla; prentun, ljósritun, interneti og fleiru.