Dale Carnegie á Íslandi hefur ákveðið að veita  Þór Sigfússyni, forstjóra Sjóvá, leiðtogaverðlaun Dale Carnegie.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Dale Carnagie.

Þar segir einnig að verðlaunin séu veitt fyrirtækjum og einstaklingum sem þykja skara fram úr á sviði mannauðsstjórnunar og hafi sýnt frumkvæði og sköpun í starfsemi fyrirtækja sinna.

„Tilefni verðlaunanna er sú ákvörðun Sjóvá að styðja markvisst við bakið á starfsfólki sínu m.a. með markvissri þjálfun í samstarfi við Dale Carnegie og gera því þannig kleift að efla hæfni sína til að takast á við margbreytilegar áskoranir fyrirtækisins,” segir í tilkynningunni.

Í rökstuðningi frá Dale Carnegie segir að Þór hafi sýnt sanna leiðtogahæfileika í verki og hafi á eftirtektarverðan hátt byggt upp jákvætt andrúmsloft á tímum breytinga og hafi þannig eflt liðsheild Sjóvár til muna.  Þetta mun vera í annað  sinn sem þessi viðurkenning er veitt hér á landi en árlega eru veitt 6-8 leiðtogaverðlaun í heiminum.   Gunnar Einarsson bæjarstjóri í Garðabæ hlaut verðlaunin í fyrra.

Frá árinu 1977 hafa Dale Carnegie and Associates veitt einstaklingum og fyrirtækjum leiðtogaverðlaun Dale Carnegie. Meðal fyrirtækja og einstaklinga sem hlotið hafa þessa viðurkenningu eru Daimler–Chrysler Corporation og forstjóri þeirra Mr. Lee Iacocca og SAS Scandinavian airlines og forstjóri þeirra Mr. Jan Carlson.

Forstjóri Dale Carnegie and Associates Hr. Peter Handal kemur til landsins og veitir Þór verðlaunin sem verða afhent við hátíðlega athöfn í Forvarnarhúsi Sjóvá, Kringlunni 1, fimmtudaginn 28. Ágúst kl. 16.45