Gengi bandaríkjadals gagnvart evru veiktist nokkuð í dag, í kjölfar þess að skýrsla um bandarískan vinnumarkað kom út. Í skýrslunni kemur fram að hægt hafi á bata á bandarískum vinnumarkaði og er hann nú eins hægur og hann var í lok árs 2013.

Þá lækkaði ávöxtunarkrafa á tíu ára skuldabréfum um 8 punkta og nam 1,84 prósentum.

Styrking dalsins, sem hófst í júlí í fyrra, hefur stöðvast undanfarnar tvær viku. Ástæðan er sú að væntingar markaðarins til vaxtahækkana hjá Seðlabanka Bandaríkjanna hafa hjaðnað.

Hlutabréfamarkaðir í Evrópu og Bandaríkjunum eru lokaðir yfir páskana.