Það er sorglegt ef Íslendingar ákveða að slíta aðildarviðræðum, segir Cristian Dan Preda, sendifulltrúi ESB vegna aðildarumsóknar Íslands að Evrópusambandinu og þingmaður á Evrópuþinginu. Kaflarnir um efnahags- og peningamál og byggðastefnu verða opnaðir á morgun. Jafnframt er búist við því að viðræðum ljúki með bráðabirgðasamkomulagi um samkeppnismat. Samningaviðræður ganga vel að mati Dan Preda en 10 samningsköflum er lokið af 33.

Dan Preda segir Icesave og makríldeiluna hafa vakið upp neikvæða umræðu en reynt hafi verið að tengja þessar deilur ekki við aðildarumsóknina. Hann segir Ísland vera það land í heiminum sem hefur sterkustu samningsstöðuna varðandi sjávarútveg og ef Ísland getur ekki samið þá ættu fá önnur lönd að geta samið. Þetta kom fram á fundi með íslenskum fjölmiðlum í morgun.

Íslendingar rökræða ekki

Engar almennilegar rökræður eiga sér stað um Evrópusambandið að mati Dan Preda. Neikvæðar fréttir um ESB sjáist víða en ekki rökræður þar sem bæði sjónarhorn komi fram. Hann segir stjórnmál á Íslandi ekki frábrugðin stjórnmálum í öðrum Evrópulöndum. Í tillögum Dan Preda um aðildarumsókn Íslands lýsir Dan Preda áhyggjum sínum yfir skiptum skoðunum ríkisstjórnar á aðild Íslands í ESB.

Aðspurður um hvort þingmenn á Evrópuþingi geti skilið aðstæður á Íslandi og hversvegna neikvæðar raddir séu háværar sagðist hann gera það. Hinsvegar segist hann ekki hafa heyrt nógu góða ástæðu til þess að hætta við aðildarumsókn. Dan Preda segir að það vera undir Íslendingum komið hvort þeir dragi aðildarumsókn sína tilbaka en hann segir skilning annara landa ekki vera mikinn.