Margrét II Danadrottning þiggur boð forseta Íslands, Guðna Th. Jóhannessonar, um að heimsækja Ísland laugardaginn 1. desember næstkomandi og fagna með Íslendingum aldarafmæli fullveldis.

Danadrottning mun taka þátt í hinni fjölbreyttu dagskrá sem efnt verður til þann dag, meðal annars skoða sýningar í Hörpu og Listasafni Íslands, heimsækja Veröld, hús Vigdísar Finnbogadóttur fyrrverandi forseta, og sitja hátíðarkvöldverð forsetahjóna á Bessastöðum.

Þá mun Danadrottning sækja fullveldisdagskrá í Hörpu að kvöldi 1. desember og flytja þar ávarp. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá forsetaembættinu. Þess má geta að Margrét Þórhildur eins og hún heitir fæddist sem prinsessan yfir Íslandi, en frá 1. des 1918 til 17. júní 1944 var Ísland frjálst og fullvalda konungsríki í konungssambandi við Danmörk.