Sjálfseignarstofnunin sem á og sér um höfundarréttindi J.R.R. Tolkien, höfundar Hringadróttinssögu og Hobbitans, hefur höfðað 80 milljón dala mál á hendur kvikmyndarisanum Warner Bros vegna meintra brota á á höfundarrétti og fyrir að hafa ekki staðið við samninga um notkun á höfundarréttarvörðu efni.

Málið snýst um fjárhættuspil á netinu, en Warner Bros og dótturfyrirtæki þess hafa lagt blessun sína yfir spilakassa á netinu sem skreyttir eru með myndum úr Lord of The Rings myndunum. Stofnunin, The Tolkien Estate, vill meina að þegar hún seldi réttinn til að framleiða og selja afleiddar vörur af bókunum, hafi fjárhættuspil og netafþreying ekki verið þar á meðal. Frekar hafi þar verið átt við leikföng, styttur, fatnað og annað þvílíkt. Þá geti fjárhættuspilin valdið ímynd Tolkiens skaða.

Kvikmyndaserían sem gerð var eftir Hringadróttinssögu hefur halað inn eina þrjá milljarða dala, andvirði um 380 milljarða króna, og fyrsta myndin í nýjum þríleik, sem gerður er eftir Hobbitanum, er væntanleg á næstu vikum.