Á síðasta rúma áratugnum létust flestir Íslendingar úr bláðrásarsjúkdómum og æxlum að því er Hagstofa Íslands hefur tekið saman. Þó hefur dánartíðni vegna illkynja æxla lækkað um 27% síðustu tvo áratugina, meðan hlutfall þeirra sem létust úr tauga- og skynfærasjúkdómum jókst úr 51 af hverjum 100 þúsund íbúum í 100.

Skýrist það af 11% hlutfallslegri fjölgun þeirra sem eru eldri en 85 ára, enda slíkir sjúkdómar, eins og Alzheimers og Parkinson líklegri til að hrjá eldra fólk. Á tímabilinu 2008 til 2017 létust flestir, eða 7.065 landsmenn úr bláðrásarsjúkdómum ýmis konar, eða 34% allra sem létust á tímabilinu.

Þar á eftir létust 6.031 úr æxlum eða 29% allra látinna. Alls létust 1.083 úr sjúkdómum í taugakerfi (9,5%) og 1.812 úr sjúkdómum í öndunarfærum (8,7%). Fæstir dóu vegna ytri orsaka eða 1.331 sem svarar til 6% af heildarfjölda látinna yfir tímabilið 2008–2017.

Eins og gefur að skilja er skipting dánarmeina þeirra sem yngri eru öðruvísi, en fram til 34 ára deyja flestir úr ytri orsökum eða 54%. Þar er töluverður munur á kynjunum, en 61% karla deyja af ytri orsökum en 38% kvenna.

Í aldursflokknum 35–64 ára deyja flestir úr æxlum eða 46%. Þar er einnig mikill munur á kynjunum þar sem mun fleiri konur, eða 59% deyja úr æxlum á þessu aldursskeiði en karlar eða 37%.

Þó ber að hafa í huga í þessu samhengi að hlutfallslega færri deyja yngri en 65 árs eða einungis tæp 17% allra látinna yfir tímabilið 2008–2017. Í aldursflokknum 65–79 ára eru æxli enn algengust með 43% hlutdeild á móti 28% vegna blóðrásarsjúkdóma en röðun annarra dánarorsaka sama og fyrir heildarfjölda látinna.