Álagningaskrá fyrirtækja í Danmörku verður opnuð almenningi í lok þessa árs, en hugmyndin er fengin frá systurflokki Vinstri-grænna í Danmörku, Enhedslisten. Samkvæmt frétt Börsen vonast fjármálaráðherra Danmerkur, Thor Möger Pedersen, til að birting skrárinnar muni ýta undir skattgreiðslur hjá fyrirtækjum.

Talsmaður Radikale Venstre, sem er einn stjórnarflokkanna, hefur þó ekki trú á að sú verði raunin. Börsen hefur eftir Nadeem Farooq að hans flokkur hafi stutt tillöguna vegna þess að birting skrárinnar muni gera út um þá goðsögn að fyrirtæki í Danmörku greiði ekki það sem þeim beri til ríkisins. Segir hann að það sé algengur misskilningur að alþjóðleg fyrirtæki greiði ekki skatt í Danmörku og að birting skrárinnar muni eyða þessum misskilningi.