Lækkun matsfyrirtækisins Moody's á lánshæfiseinkunnum níu banka í Danmörku virðist ekki hafa mikil áhrif á fjárfesta þar í landi. Danska hlutabréfavísitalan C-20 hefur hækkað um 0,42% frá því viðskipti hófust í dag. Þar af hefur einkunnagjöfin ekkert snert á bönkunum. Þvert á móti hefur gengi hlutabréfa í Danske Bank, sem var lækkaður um tvo flokka í einkunnabókum  Moody's, hækkað um tæp 0,2%.

Moody's segir rökin fyrir lægri einkunn óvissa á evrusvæðinu og efasemdir um gæði lánasafna bankanna níu.

Í netútgáfu danska viðskiptadagblaðsins Börsen er haft eftir Ole Kjær Jensen, bankastjóra Sydbank, að búist hafi verið við því að Moody's myndi lækka lánshæfiseinkunnir bankanna. Hún hafi í sumum tilvikum reynst minni en reiknað hafi verið með. Því til staðfestingar bendir hann á að búist hafi verið við að lánshæfiseinkunnir Danske Bank yrðu lækkaðar um þrjá flokka. Gengi hlutabréfa Sydbank, sem var á meðal bankanna níu, hefur nú hækkað um tæplega 1% í dönsku kauphöllinni.

Af bönkunum níu voru lánshæfiseinkunnir  DLR Kredit færðar í ruslflokk.