Danska risafyrirtækið A.P. Møller-Mærsk skilaði rekstrarhagnaði upp á rétt tæpa níu milljarða danskra króna á öðrum ársfjórðungi. Þetta er talsverður samdráttur á milli ára eða sem nemur 28%. Á öðrum ársfjórðungi í fyrra nam hagnaður fyrirtækisins 12,4 milljörðum danskra króna.

Tekjur námu 80,94 milljörðum danskra króna, sem er 9% samdráttur frá í fyrra. Fram kemur í umfjöllun danska viðskiptablaðsins Börsen um uppgjör félagsins að afkoman hafi verið umfram væntingar. Skipaflutningareksturinn skilaði hagnaði upp á rúma 2,4 milljarða danskra króna á fjórðungnum nú borið saman við tæpa 1,3 milljarða á sama tíma í fyrra. Í uppgjörinu er tekið fram að afkoman hafi batnað þar sem tekist hafi að draga úr rekstrarkostnaði á fyrri hluta árs þrátt fyrir erfiðan markað, ekki síst í Asíu og Evrópu.