Íslenska krónan hefur styrkst um 7,4% gagnvart dönsku krónunni síðan í byrjun árs, samkvæmt útreikningum danska viðskiptablaðsins Börsen, og hefur sú íslenska staðið sig einna best á gjaldeyrismarkaði það sem af er árinu.

Í frétt danska blaðsins í dag segir að spákaupmennska hafi stuðlað að styrkingunni og hafa gjaldeyrisviðskipti tvöfaldast í samanburði við viðskipti á íslenskum skuldabréfamarkaði.

Stýrivextir Seðlabanka Íslands eru 14,25% og segir Börsen að háir vextir á Íslandi hafi leitt til þess að danskir fjárfestar fái nú lánað fjármagn í auknum mæli þar sem vextir eru lágir og fjárfesti síðan á Íslandi (e. carry-trade).

Lars Christensen, hagfræðingur hjá Danske Bank og einn af höfundum hinnar svokölluðu dökku skýrslu Danske Bank, segir viðskipti að þessu tagi gífurlega áhættusöm.