Samkvæmt fréttasíðu BBC hafa dönsk yfirvöld ákveðið að kaupa gögn sem tengjast hugsanlegum skattaundanskotum. Skattamálaráðherra Karsten Lauritzen tilkynnti fjölmiðlum þetta fyrr í vikunni, en um er að ræða upplýsingar sem veita yfirvöldum innsýn inn í starfsemi 600 Dana í skattaskjólum.

Lauritzen segir danskan almenning eiga það skilið að ríkið eltist við þá sem ekki hlýði fyrirmælum yfirvalda. Yfirvöld í Þýskalandi, Frakklandi og Bretlandi hafa öll keypt gögn sem varða hugsanleg skattsvik. Tilfelli Dana er þó örlítið öðruvísi, þar sem um er að ræða kaup frá huldumanni, sem komst yfir gögn frá Mossack Fonseca.

Ráðherrann hefur ekki sagt til um kaupverðið, en líklegt er að ríkið muni greiða allt að 9 milljónir danskra króna fyrir gögnin. Upphæðin samsvarar því ríflega 156 milljónum íslenskra króna. Ráðherrann er handviss um að gögnin muni koma að góðum notum og segir það mikilvægt að ráðast gegn skattaundanskotum.

Kaupin teljast þó afar umdeild og hafa andstæðingar ráðherrans lýst yfir óánægju með kaupin.