Danska hagkerfið er á barmi efnhagslegrar niðursveiflu og líkur á að samdráttur mælist tvo ársfjórðunga í röð.

Útflutningurinn dróst saman um 1,8% í september og útlitið fyrir október, nóvember og desember er ekki sérlega gott og líklegt að útflutningurinn muni dragast lítið eitt saman.

Tore Stramer, aðalhagfræðingur Nykredit Markets, segir í samtali við Politiken að minnkandi útflutningur ásamt með veikri einaneyslu og lítilli fjárfestingu í atvinnulífinu geri það að verkum að reikna megi með að landsframleiðslan hafi dregist saman á þriðja fjórðungi ársins; útflutningstölurnar sýni að dönsk útflutningsfyrirtæki séu farin að finna fyrir skuldakreppunni í Evrópu.

„Það er raunhæfur möguleiki að það verði einnig samdráttur á fjórða ársfjórðungi og tæknilega myndi það þá þýða að Danmörk væri komin í efnahagslega niðursveiflu,“ segir Tore. Í nýbirtri greiningarskýrslu Danske Bank á stöðunni í Danmörku er sömuleiðis varað við því að Danmörk sé stödd á barmi niðursveiflu.