Danir segja stöðu og horfur í efnahagsmálum Svía ekki góða. Í danska viðskiptablaðinu Börsen í dag segir að svo virðist sem Svíar séu greinilega berskjaldaðri gagnvart skuldakreppunni á evrusvæðinu en áður hafi verið talið og sé fjarri að landið sé jafn gott skjól fyrir fjárfesta gegn fjárkreppunni og sumir halda

Talið er til að landsframleiðsla í Svíþjóð hafi dregist saman um 0,2% á milli fjórðunga og er nú á svipuðu róli og fyrir þremur árum. Þá hafi gengi sænsku krónunnar lækkað um 2,2% gagnvart gjaldmiðlum helstu nágrannalanda á síðastliðnum þremur mánuðum.

Í Börsen segir m.a. að Svía eigi mikið undir viðskiptum við evruríkin. Nú þegar dregið hafi úr eftirspurn þar hafi sænsk útflutningsfyrirtæki á borð við Ericson og Volvo orðið að segja starfsfólki upp til að hagræða í rekstri.

Þessi neikvæðu ytri áhrif hafa sömuleiðis haft sitt að segja um væntingar fólks í sænsku viðskiptalífi en væntingarvísitalan þar stendur nú í -18 stigum. Hún hefur ekki verið lægri í rúm þrjú ár.

Börsen segir Stefan Ingves, seðalbankastjóra Svíþjóðar, tregan til að lækka stýrivexti þrátt fyrir óvissu í efnahagslífinu þar sem ódýrari lán geti aukið enn frekar á skuldabyrði sænskra heimilia. Stýrivextir í Svíþjóð standa nú í 1,25%.