Stefnt er að 2,25% hagvexti að meðaltali á hverju ári frá 2014 til 2020 í Danmörku. Þetta kemur fram í efnahagsáætlun ríkisstjórnar Helle Thorning-Schmidt. Gert er ráð fyrir því að vöxtur í einkageiranum dragi lestina.

Samkvæmt áætluninni er gert ráð fyrir því að skapa 180 þúsund ný störf á tímabilinu. Gangi þær áætlanir eftir verður atvinnuleysi komið á svipað ról og fyrir kreppu.

Danska viðskiptablaðið Börsen hefur í dag eftir Thorning-Schmidt, að skilaboðin sem felist í efnahagsáætluninni séu þau að hægt sé að einungis sé hægt að halda velferðarsamfélaginu á lífi með því að halda fólki í vinnu. Nú um stundir sé staðan slík að tiltölulega fáir haldi velferðarsamfélaginu gangandi. Hún kom jafnframt inn á samkeppnishæfni landsins og sagði að hana þyrfti að auka. Liður í því sé að fleiri gangi menntaveginn.

„Ekkert verður til af sjálfu sér. Við viljum sjá að allir leggi sitt af mörkum,“ sagði Thorning-Schmidt.