Mörg hundrað danskir fjárfestar hafa fjárfest 800 milljónum íslenskra króna á bananafélag í Níkaragúa í Mið-Ameríku en óttast nú að það sé glatað fé, að því er fréttavefurinn business.dk greinir frá. Fjárfestingin átti að færa þeim ævintýralega ávöxtun, allt að 200% á skömmum tíma, en ævintýrið virðist nú að snúast upp í harmleik. Fjármunirnir áttu að renna til skógarhöggs og bananaræktunar í Nígaragúa en þegar fram komu ásakanir um svindl og fjárglæfra ákváðu á að giska eitt hundrað fjárfestar að draga sig í hlé seinasta föstudag. Öll spjót beinast að forvígismanni verkefnisins, manni að nafni Anker Sturve, og er hann sakaður um að hafa ekki fjárfest allt það fé sem hann fékk til umráða með þeim hætti sem um var samið.

„Það er rétt að Struve hefur lent í fjárhagslegum erfiðleikum og hefur hætt sér út í stærra verkefni en efnahagur hans ræður við. Hann hefur ekki keypt allt það landsvæði sem hann átti að kaupa né komið á fót þeim plantekrum sem til stóð að stofna,” hefur Jyllands-Posten eftir einum fjárfestanna. Struve hefur kynnt sjálfan sig sem umhverfisvænan fjárfesti og m.a. fengið stuðning frá danska ríkinu til að stofnsetja umhverfisvæna trjáverksmiðju. Að sögn business.dk hafa sumir fjárfestanna dönsku lagt sem jafngildir tugum milljóna íslenskra króna í bananaævintýrið.