Gjaldþrotum í Danmörku fjölgaði árstíðaleiðrétt um 11% á milli mánaða í desember sl., að því er Børsen hefur eftir hagstofunni í Danmörku. Þetta er mesta gjaldþrotahrina frá upphafi mælinga, sem hófust árið 1979.

Gjaldþrotum fjölgaði um 148% frá desember árið 2007, en í frétt Børsen segir að ástandið eigi ef til vill enn eftir að versna. Blaðið hefur eftir Frank Øland Hansen, aðalhagfræðingi hjá Danske Bank, að bankinn óttist að gjaldþrot verði enn fleiri í janúar og febrúar.

Í Danmörku fóru rúmlega 3700 fyrirtæki í gjaldþrot í fyrra, þar af 430 í desember.

Aukning gjaldþrota er mest í verslun, hótelum, veitingastöðum, fjármála- og fyrirtækjaþjónustu, að því er segir í Børsen.