Viðskipti með bréf danska bankans Bonusbanken voru tekin úr viðskiptum í kauphöllinni í Kaupmannahöfn í dag. Bréfin höfðu fallið um tæpan fjórðung strax við opnun markaða. Forstjóri Bonusbanken sagði í viðtali við Børsen í morgun að gjaldþrot athafnamannsins Kenneth Schwarz myndi koma illa við bankann. Kaupþing á 13% hlut í Bonusbanken.

Bonusbanken hefur lent í talsverðum vandræðum vegna stórra lánveitinga til einstakra athafnamanna. Ummæli forstjórans í Børsen í morgun voru talin tilefni til þess að stöðva viðskipti með bréf bankans, þar sem sennilega hefði átt að tilkynna Kauphöllinni fyrst upplýsingar sem þessar.

Meðal annarra stórra viðskiptavina Bonusbanken sem nú riða til falls eru athafnamennirnir René Muller og Jesper Koch Anderssen, að því er kemur fram í Børsen.

Staða Bonusbanken við hálfsársuppgjör var þó góð. Eiginfjárhlutfall bankans var 11,3% og innlán nánast jöfn útlánum.