Húsnæðisverð í Danmörku gæti fallið umtalsvert. Þetta segir danski hagfræðingurinn Jacob Brøchner í viðtali við Børsen í dag, en Brøchner er prófessor við Háskólann í Melbourne. Brøchner spáði því fyrir nokkrum árum að hlutabréfaverð og húsnæðisverð mundu fara lækkandi og hlaut fyrir gagnrýni í dönsku pressunni, að sögn Børsen. Nú spáir hann því að húsnæðisverð eigi enn eftir að lækka áður en það hækkar á ný.

Brøchner segir að ástæður þess hve illa hefur farið séu skortur á áhættustýringu og mikil lántaka og skuldsettar fjárfestingar. Hann nefnir jafnt banka, fjárfesta og heimili í þessu sambandi og segir að nú þurfi viðhorfsbreytingu. Danir þurfi að fara að spara í stað þess að taka lán til að halda upp neyslu sem ekki sé grundvöllur fyrir.