Svo virðist sem nýjasta jarmhlutabréfið (e. meme stock) sé danska líftæknifyrirtækið Orphazyme A/S en gengi svokallaðra bandarískra vörsluhlutabréfa (e. American depositary shares, ADS) félagsins hækkaði um nærri 1.400% þegar mest var í gær en endaði þó í 300% hækkun við lokun markaða vestanhafs. Bloomberg greinir frá.

ADS bréf eru hlutabréf í vörslu bandarískra banka eða fjármálastofnana sem gera fjárfestum kleift að eiga viðskipti með hlutabréf félaga sem eru skráð í erlendum kauphöllum. Orpazyme segist ekki hafa skýringu af hverju ADS bréfin ruku upp úr öllu valdi í nótt. Við opnun dönsku kauphallarinnar hækkuðu almennu hlutabréf Orphazyme um 76%. Fyrirtækið hefur varað fjárfesta við að stökkva á jarmvagninn.

„Fjárfestar sem kaupa ADS eða hlutabréf í fyrirtækinu gætu tapað talsverðum hlut fjárfestingar sinnar ef verð þessara verðbréfa lækkar í kjölfarið,“ segir í tilkynningu Orphazyme. Jafnframt sagði fyrirtækið að það væri ekki meðvitað um neinar veigamiklar breytingar á klínískum rannsóknum sínum, fjárhagsstöðu eða rekstrarniðurstöðum sem gæti skýrt verðhækkun og veltu með hlutabréfin.

„Það eru ekki bara GameStop og AMC sem verða fyrir skrýtnum, skyndilegum og óútskýranlegum verðbreytingum,“ sagði Pet Hansen, hagfræðingur hjá miðalarafyrirtækinu Nordnet, í bréfi til viðskiptavina. „Stundum eru engar rökrænar skýringar fyrir því sem gerist á hlutabréfamörkuðum. Þróun hlutabréfaverðs Orphazyme er dæmi um það.“

Fjárfestar félagsins hafa beðið eftir mikilvægri stöðuuppfærslu á tilraunameðferð fyrir Niemann-Pick sjúkdóminn. Beiðni fyrir lyfið, sem kallast arimoclomol, er í forgangi hjá Matvæla- og lyfjaeftirliti Bandaríkjanna sem mun birta niðurstöður þann 17. júní næstkomandi. Orpazmy hefur þó ekki gefið frá sér neinar upplýsingar sem gætu skýrt skyndilega áhugann á hlutabréfunum.

Hlutabréfaverð Orphazyme, sem notar hitalostsprótín til að þróa meðferðir fyrir sjaldgæfa taugahrörnunarsjúkdóma, hefur sveiflast nokkuð frá frumútboði félagsins árið 2017. Gengið náði hámarki í febrúar 2020, þá 69% yfir útboðsgenginu, en er nú um þriðjungi lægra en útboðsgengið, þrátt fyrir hækkun dagsins.