*

föstudagur, 14. maí 2021
Innlent 18. apríl 2021 16:11

Danmörk leitt hækkanir Norðurlanda

Frá árslokum 2008 hefur hltuabréfaverð í Danmörku ríflega fimmfaldast samanborið við þreföldun á íslenskum markaði.

Andrea Sigurðardóttir
Samanburð á hlutabréfaverði á Norðurlöndum er að finna í Hagvísum Seðlabanka Íslands.

Tíðrætt er um hækkanir á íslenskum hlutabréfamarkaði, en úrvalsvísitala hlutabréfamarkaðar, OMXI 10, hækkaði um 20,48% á síðasta ári. Þróun hlutabréfaverðs hér á landi hefur verið í takt við þróun hlutabréfamarkaða víða um heim, en hlutabréfaverð hefur hækkað mest í Danmörku undanfarin ár þegar litið er til Norðurlandanna

Sjá einnig: Misgott ár atvinnugreina á markaði.

Í hagvísum Seðlabanka Íslands frá 26. mars síðastliðnum er að finna samanburð á hlutabréfavísitölum Norðurlandanna. Hlutabréfaverð á Íslandi hækkaði næstmest Norðurlandanna á síðasta ári, en mest hækkaði hlutabréfaverð í Danmörku, um 25%. Í Svíþjóð hækkaði hlutabréfaverð um 13%, í Finnlandi um 11% en í Noregi lækkaði hlutabréfaverð um 3%.

Frá árslokum 2008 hefur hlutabréfaverð í Danmörku hækkað langmest meðal Norðurlandanna. Í lok febrúar síðastliðins hafði hlutabréfaverð þar í landi ríflega fimmfaldast frá þeim tíma, en hækkunin nam 423%. Á sama tímabili hækkaði hlutabréfaverð um 304% í Svíþjóð, 212% á Íslandi, 182% í Noregi og loks 112% í Finnlandi.

Lífeyrissjóðir notið góðs af hækkunum

Lífeyrissjóðirnir eru stærstu fjárfestar íslensks hlutabréfamarkaðar og nutu sjóðirnir sem slíkir góðs af hlutabréfahækkunum síðasta árs, hvort heldur sem er hér á landi eða erlendis. Þróun og skipting eigna lífeyrissjóðanna á árunum 2010 til 2020 kemur fram í Hagvísum Seðlabankans.

Samkvæmt gögnum sem fylgja Hagvísunum jukust eignir sjóðanna um 19% milli áranna 2020 og 2019. Þar af jukust eignir í innlendum hlutabréfum, hlutabréfasjóðum og Framtakssjóði Íslands um 26,9% og erlendar eignir, að mestu hlutabréf, um 33,1%.

Eign í innlendum hlutabréfum, hlutabréfasjóðum og Framtakssjóði Íslands nam 17,13% af eignasafni lífeyrissjóðanna, samanborið við 16,2% ári fyrr. Þá námu erlendar eignir 33,7% af eignasafni sjóðanna, samanborið við 30,1% ári fyrr.

Rétt er að geta þess að í hagvísum Seðlabankans er stuðst við bráðabirgðatölur á árinu 2020, en endanlegar tölur munu liggja fyrir í lok maí 2021. Landssamtök lífeyrissjóða áætla að lífeyrissjóðirnir hafi skilað að meðaltali rúmlega 9% raunávöxtun allra eigna sinna á árinu 2020. 

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér