Nágrannalöndin Danmörk og Svíþjóð eru komin í stríð. Sem betur fer einskorðast stríðið við samfélagsmiðilinn Twitter þar sem opinberar síður beggja landa skjóta föstum skotum á hvort annað.

Twitter síðu Danmerkur, sem kallast Denmark.dk og má finna undir nafninu @denmarkdotdk , er haldið út af danska utanríkisráðuneytinu, en þeir sjá einnig um opinbera vefsíðu Danmerkur, Denmark.dk. Á hinum endanum er Twitter-síðan Sweden.se, eða @swedense , sem stýrt er af Svíþjóðarstofu (Svenska Institutet), sem er opinber stofnun.

Orðastríðið byrjaði þegar Danir skrifuðu færslu á Twitter sem sagði: „Vissuð þið að allt sem ekki er bannað í Svíþjóð er skylda?“

Svíarnir svöruðu með GIF-mynd af hlæjandi manni áður en þeir tilkynntu áform sín um að innlima Danmörku í Svíþjóð. Í kjölfarið vísuðu Danir í frétt þar sem vitnað var í að yfir helmingur Svía vildi gefa Skánarsvæðið, sem inniheldur meðal annars borgina Malmö, til Danmerkur .

Svíarnir byrjuðu þá að gera grín að því hvernig Danir tala, sögðust ekki vera vissir um hvort nágrannar sínir væru að segja eitthvað eða kafna. Danirnir vísuðu þá í skondna frétt af sænsku lögreglunni sem hafði handtekið mann og fyrst haldið að hann væri danskur, en komist síðan að því að hann væri drukkinn .

Svíarnir sögðu þá: „Kæra Danmörk, á morgun verð ég orðinn edrú en þið munuð ennþá tala asnalega.“ Danirnir voru ekki lengi að svara og sögðu: „En kæra Svíþjóð, við vitum að þið verðið komnir aftur til Danmerkur á morgun að kaupa meira áfengi.“

Þetta skondna Twitter-rifrildi má lesa í sinni upphaflega útgáfu með því að smella hér . Þá má sjá fleiri búta úr rifrildinu, þar sem elgir koma m.a. við sögu, með því að smella hér.