Nú þegar búið er að telja upp úr kjörkössum í Danmörku er ljóst að ríkisstjórn Anders Fogh Rasmussen heldur velli. Dönsku stjórnarflokkarnir ráða 90 þingsætum á þinginu sem gefur þeim meirihluta. Á danska þinginu sitja 179 þingmenn. Lengi vel leit út fyrir að núverandi meirihluti þyrfti að treysta á hinn nýja flokk, Ny Alliance, sem stofnaður var fyrr á þessu ári. Núverandi stjórn er minnihlutastjórn Venstre og Íhaldsflokksins, en nýtur stuðnings Danska þjóðarflokksins. Kjörsókn var um 86%.

Þegar þetta er skrifað hafa tölur ekki borist frá Grænlandi en stjórnarflokkarnir hafa nú þegar tryggt sér meirihluta þannig að ekki verður breyting á því.

Naser Khader, formaður Ny Alliance, hafði gefið til kynna fyrir kosningar að hann myndi að öllum líkindum styðja núverandi ríkisstjórn þannig að í raun var stjórnin aldrei í hættu á því að falla þar sem hún hafði forystu frá því fyrstu tölur voru birtar. Um tíma leit þó út fyrir að stjórnin þyrfti að treysta á stuðning Ny Alliance.

Það sem hins vegar tryggði núverandi stjórn meirihluta er kjör Færeyingsins Edmund Joensen sem verður þingmaður á danska þinginu fyrir Sambandsflokkinn  í Færeyjum. Sambandsflokkurinn er systurflokkur Venstre, flokks Fogh Rasmussen.

En úrslit kosninganna voru þannig:

Venstre fékk 26,3% atkvæða og 46 þingsæti. Tapaði 6 sætum frá síðustu kosningum.
Jafnaðarmannaflokkurinn fékk 25,5% atkvæða og 45 þingsæti. Tapar 2 sætum frá síðustu kosningu.
Danski þjóðarflokkurinn fékk 13,8% atkvæða, bætir við sig einu sæti og fær 25 þingsæti.
Sósíalíski þjóðarflokkurinn er hástökkvari kosninganna. Hann fékk 13% atkvæða, bætir við sig 12 þingsætum og endar með 23 þingsæti.
Íhaldsflokkurinn fékk 10,4% atkvæða og heldur sínum 18 þingsætum.
Róttæki vinstriflokkurinn fékk 5,1% atkvæða og endaði með 9 þingsæti. Tapar 8 þingsætum.
Ny Alliance fékk 2,8% atkvæða og 5 þingsæti. Eins og áður hefur komið fram er þetta nýr flokkur.
Einingarlistinn fékk 2,2% atkvæða og 4 þingsæti. Flokkurinn tapar 2 þingsætum frá síðustu kosningum.
Kristilegi demókrataflokkurinn rak að lokum lestina með 0,9% atkvæða og engan þingmann.

Venstre er stærsti flokkurinn í Danmörku nú þriðju kosningarnar í röð. Anders Fogh Rasmussen er þó fyrst leiðtogi Venstre sem mun sitja sem forsætisráðherra þrjú kjörtímabil.

Úrslit kosninganna er hins vegar versta útkoma sem Jafnaðarmannaflokkurinn hefur fengið. Helle Thorning Schmidt, leiðtogi Jafnaðarmanna, lýsti yfir ósigri rétt fyrir miðnætti á dönskum tíma en tók þó fram að hún myndi stefna að því að vinna Fogh Rasmussen í næstu kosningum.

Anders Fogh Rasmussen sagði hins vegar að stjórnin hefði nú nýtt umboð til að sinna verkefnum sínum þegar hann ávarpaði stuðningsmenn sína eftir að úrslit lágu fyrir.