Danól hefur tekið yfir öll viðskiptasambönd Bako hf. sem snúa að vörum fyrir stóreldhús og matvælaiðnaðinn. Stærstu vörumerkin eru Odense Marzipan, Barry-Callebaut, Ireks og Kessko og er fjöldi vörunúmera um 1.800. Að öllu samanlögðu er hér um 250 milljóna króna veltu á ári að ræða en velta Danól nemur hins vegar rúmlega 3.500 milljónum á árinu.

Í tilkynningu vegna kaupanna er haft eftir Októ Einarssyni hjá Danól að sameiningin sé góð bæði fyrir vörumerkin sjálf og rekstur Danól. “Það er nánast engin skörun á vörumerkjum fyrirtækjanna og bjóðum við alla starfsmenn Bako sem hafa sinnt þessum vörum til starfa áfram hjá sameinuðu fyrirtæki. Í framhaldinu mun öll starfsemi Danól sem snýr að stóreldhúsum, bakaríum og matvælaiðnaði færast að Lynghálsi 7 frá og með janúar 2008“.

Mikil aukning hefur verið í sölu til stóreldhúsa og fyrir matvælaiðnaðinn á undanförnum árum og er spáð verulegum vexti á þessum hluta markaðarins í framtíðinni. „Nýju vörumerkin skapa Danól mjög áhugaverð sóknarfæri á þessu sviði“, segir Októ.