Eigendur Daníels Ólafssonar ehf., sem rekur heildsölufyrirtækið Danól, ákváðu fyrir skömmu að selja fyrirtækið og allar eigur þess. Þar með talda Ölgerðina Egil Skallagrímsson ehf. Á fimmta tug fjárfesta hafa sýnt áhuga á kaupum á fyrirtækjunum, þar á meðal nokkrir erlendir aðilar. Um þetta er fjallað í ítarlegu viðtali við Októ Einarsson aðstoðarframkvæmdastjóri fyrirtækisins í Viðskiptablaðinu í dag.

Fyrirtækin hafa sterka fjárhagsstöðu og þykir bæði heilsölufyrirtækið Danól sem og Ölgerðin álitlegir kostir. Bæði fyrirtækin eru í mikilli sókn og með mörg járn í eldinum. Þá er ekki síst talið áhugavert fyrir erlend bruggfyrirtæki að reyna að komast yfir Ölgerðina sem sögð er einstakt tækifæri fyrir þau til að ná fótfestu á íslenskum markaði.

Októ Einarsson, segir fyrirtækin ekki verða seld fyrir neina skiptimynt og alls ekki nema gott verð fáist fyrir þau. Það hafði þó aldrei áður verið ljáð máls á því einu sinni að ræða sölu á fyrirtækjunum. Hins vegar sé nú búið að setja þau í sölumeðferð og full alvara sé með að selja á þessum tímapunkti.

Sjá nánar í Viðskiptablaðinu í dag.