Það er hefð að eyða aðfangadagskvöldi í Skerjafirðinum og hlusta á kirkjuklukkurnar í bílnum hjá Unni Elísabetu Gunnarsdóttur, dansara og danshöfundi. Hún segist hafa dálæti á jólunum og vera mikið jólabarn.

Þessi jól verða þó nokkuð óhefðbundin hjá henni þar sem hún setur upp sitt eigið verk, Vivid, í samstarfi við Þjóðleikhúsið. Hún hefur um langt skeið dansað fyrir Íslenska dansflokkinn sem setti á svið verkið Emotional í októbermánuði. Unnur hefur áður sett upp eigin dansverk og einnig ljósmyndasýningar.Verkið Vivid er þó stærsta verkið til þessa.

„Viktor Orri Árnason, úr hljómsveitinni Hjaltalín,semur tónlistina. Síðan er ég í samstarfi við frábæra listakonu frá Rúmeníu sem heitir Raluca Grada sem sér um leikmynd og búninga. Í sýningunni eru fimm frábærir dansarar. Verkið fjallar um það að þora að lifa og þora að brjótast út fyrir rammann. Já eða út úr kassanum þar sem þetta er sett upp í Kassanum í Þjóðleikhúsinu. Við búum til heim þar sem allt virðist fullkomið við fyrstu sýn en við nánari skoðun kemur annað í ljós. Ég veit ekkert skemmtilegra en að búa til mitt eigið verk þannig að það er markmið að gera sem mest af því í framtíðinni.“

Nánar er spjallað við Unni Elísabetu í Jólagjafahandbókinni sem fylgir Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .