*

þriðjudagur, 14. júlí 2020
Fólk 6. október 2019 18:01

Dansar Bollywood-dans

Helga Dögg Björgvinsdóttir er nýr viðskiptastjóri hjá hugbúnaðarfyrirtækinu Men&Mice.

Sveinn Ólafur Melsted
Helga Dögg Björgvinsdóttir, nýr viðskiptastjóri hjá Men&Mice, hefur í um áratug lagt stund á Bollywood-dans í Kramhúsinu.
Gígja Einars

Nýja starfið leggst mjög vel í mig. Það eru mjög spennandi tímar framundan hjá okkur í Men&Mice. Við erum með vel mótaða og flotta vöru sem við erum að selja og stór hluti af mínu verkefni hér er að sækja á ný mið, sem sagt erlenda markaði og finna samstarfsaðila erlendis sem geta séð um að selja og þjónusta vöruna okkar. Þannig náum við að skala út og stækka," segir Helga Dögg Björgvinsdóttir, nýr viðskiptastjóri hjá hugbúnaðarfyrirtækinu Men&Mice.

Áður en Helga Dögg hóf störf hjá Men&Mice starfaði hún hjá Microsoft á Íslandi, fyrst sem markaðs- og fjármálastjóri og síðar sem sölustjóri samstarfsaðila.

„Ég hóf störf hjá Microsoft fyrir um sex árum síðan og tími minn þar var mjög gefandi og skemmtilegur. Maður lærir mjög mikið af því að vinna fyrir svona alþjóðlegt stórfyrirtæki og eru vinnubrögðin þar allt önnur en tíðkast hjá hefðbundnu íslensku fyrirtæki. Oft er hægt að taka ákvarðanir með mjög litlum fyrirvara hjá íslenskum fyrirtækjum meðan allt þarf að fara eftir ströngum ferlum og settum reglum hjá stórum alþjóðlegum fyrirtækjum." Auk starfa innan upplýsingatæknigeirans hefur Helga Dögg reynslu af bókaútgáfu, fjölmiðlun og framleiðslu sjónvarpsefnis.

Helga Dögg er gift hæstaréttarlögmanninum Bjarna Haukssyni og saman eiga þau þrjú börn: Björgvin Hauk 17 ára, Ingu Sif 14 ára og Stefán Gauta 8 ára.

„Þetta er sæmilega stórt heimili og mikið líf og fjör innan veggja þess. Mestur frítími minn fer því í að sinna heimili og fjölskyldu. Við fjölskyldan förum reglulega saman á skíði og undanfarin ár höfum við farið saman í nokkrar eftirminnilegar skíðaferðir til Akureyrar. Ég mæti annað slagið í ræktina til að halda mér við. Svo er leyndarmálið mitt, sem reyndar allir sem þekkja mig vita, að ég stunda Bollywooddans. Ég er í Bollywood-danshópi og höfum við undanfarin tíu ár hist reglulega og æft niður í Kramhúsi undir styrkri stjórn Margrétar Erlu Maack. Þetta er góður hópur af konum á svipuðum aldri og við höfum m.a. tekið að okkur að skemmta á hinum ýmsu viðburðum. Þá eiga jafnréttismál hug minn allan og hef ég reynt að sinna þeim málaflokki eins vel og ég get í frítíma mínum. Ég er varaformaður Kvenréttindafélags Íslands og hef setið í stjórn félagsins undanfarin sjö ár," segir Helga Dögg og bætir við að meðal annarra áhugamála hennar séu lestur góðra bóka, áhorf góðra kvikmynda og sjónvarpsþátta og ferðalög.

„Mér þykir mikilvægt að skoða hvað er í kringum mann - það má ekki gleyma því að líta upp frá skrifborðinu, taka inn heiminn og víkka sjóndeildarhringinn."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér