Ísland er meðal sterkustu þjóðanna sem taka þátt í HM sem nú stendur yfir í Rússlandi en Danir senda Ísland rakleitt í undanúrslit. Þetta sýnir nýtt mat Dansk industri (DI) í Danmörku. Matið snýr þó ekki að knattspyrnuhæfileikum og baráttuþreki, heldur þrótti efnahagslífsins.

Dansk idustri stillti þjóðunum 32, sem taka þátt í HM í Rússlandi, upp í sömu riðla og þjóðirnar eru í fyrir austan. Styrkleikar og veikleikar hagkerfa þeirra voru metnir og hófst þá leikurinn.

Tvö lið komust upp úr hverjum riðli. Í fyrstu umferð komust þau lönd upp úr riðlinum þar sem atvinnuþátttaka var meiri, aðstæður til að stofna fyrirtæki betri og skuldir hins opinbera lægri. Í fyrstu umferð komust því 16 lið upp úr riðlunum átta, þar á meðal Ísland, en margir voru slegnir yfir því að Þýskaland kæmist ekki áfram. Þrátt fyrir sterkt efnahagslíf felldu háar opinberar skuldir Þjóðverja úr leik.

Dansk idustri eru systursamtök SI og SA. Nánar má lesa um úttektina hér .