Bankasýsla Danmerkur tapaði 675 milljónum danskra króna, jafnvirði 14,5 milljarða íslenskra króna, á fyrstu níu mánuðum ársins. Bankasýsla þeirra Dana tekur líkt og hér yfir skuldbindingar þeirra banka í vanda.

Í tilkynningu Bankasýslunnar sem danska viðskiptablaðið Börsen gerir að umfjöllunarefni í dag kemur fram að tapið skýrist öðru fremur af niðurfærslu á eignum og kröfum í hirslum Bankasýslunnar.

Bankasýslan eignaðist hlutabréf í dönskum bönkum þegar yfirvöld gerðu þeim kleift að greiða fyrir aðstoð frá hinum opinbera með eigin hlutabréfum. Það leiddi til þess að Bankasýslan eignaðist meirihluta hlutafjár í Skælskør Bank og Max Bank. Þeir fóru báðir á hliðina í síðasta mánuði með tilheyrandi áhrifum á eignasafn Bankasýslunnar.