Framtakssjóður Íslands hefur selt rekstur og eignir Húsasmiðjunnar til dönsku byggingavörukeðjunnar Bygma Gruppen. Kaupverð nemur 3,3 milljörðum króna. Bygma tekur við lyklavöldum í Húsasmiðjunni á Nýársdag.

Í tilkynningu frá Framtakssjóðnum kemur fram að söluferli Húsasmiðjunnar hafi staðið yfir frá því í ágúst síðastliðnum og átti Bygma hæsta tilboð í fyrirtækið.

Þá kemur fram í tilkynningunni að Bygma tekur yfir 2,5 milljarða króna vaxtaberandi skuldir Húsasmiðjunnar auk þess að greiða 800 milljónir króna í reiðufé. Engar skuldir eru afskrifaðar.

Bygma tekur einnig yfir aðrar skuldir Húsasmiðjunnar, alla ráðningarsamninga við starfsfólk, leigusamninga og aðrar rekstrartengdar skuldbindingar.

Bygma Gruppen er danskt einkafyrirtæki sem var stofnað fyrir tæpum 60 árum og hefur verið í eigu sömu fjölskyldu frá upphafi. Fyrirtækið selur og dreifir timbri og byggingavörum. Fyrirtækið rekur yfir 65 verslanir í Danmörku, Svíþjóð og Færeyjum með um það bil 1600 starfsmönnum. Vörusala hefur numið það sem af er ári um 630 milljónum evra, sem nemur um 100 milljörðum íslenskra króna.