Þýska fyrirtækið Altana mun selja danska lyfjaframleiðandanum Nycomed lyfjaarm fyrirtækisins fyrir 4,5 milljarða evra (405 milljarða króna), segir í frétt Dow Jones.

Altana tilkynnti að lyfjaarmur fyrirtækisins væri til sölu á síðasta ári og sagði að fyrirtækið væri of smátt til að standast alþjóðlega samkeppni, en kostnaður vegna þróunar nýrra lyfja væri of mikill.

Búist er við að kaupsamningurinn verði fullgildur fyrir lok árs.

Greiningaraðilar og Altana höfðu spáð að kaupverðið gæti verið á bilinu fimm til sex milljarðar evra, en þýskir fjölmiðlar höfðu þó spáð að kaupverðið færi niður í fjóra milljarða.

Altana vann í samstarfi við bandaríska lyfjafyrirtækið Pfizer þróun lyfsins Daxas, en Pfizer sleit samstarfinu um mitt síðasta ár og hefur Altana verið í vandræðum síðan. Mest selda lyf Altana er Pantoprazol, sem tekið er við magasári, en einkaleyfi á því rennur út árið 2009 og hafði Altana vonast til að Daxas myndi taka við af því. Altana mun halda áfram þróun Daxas eitt og sér og heldur því fram að árlegar tekjur af sölu Daxas verði einn milljarður evra.