Til að forðast fall samskandinavíska flugfélagsins SAS hafa ríkisstjórnir Danmerkur og Svíþjóðar boðið félaginu ríkisábyrgðir að andvirði 3 milljarða sænskra króna eða sem nemur um 42,5 milljörðum íslenskra króna.

Ríkisstjórnir landanna eru enn í dag stærstu einstöku hluthafarnir í flugfélaginu, með tæplega 15% eignarhlut hvort. Flugfélagið var stofnað var árið 1946 sem samnorrænt verkefni, þá að helmingi í eigu ríkisstjórna aðildarlandanna, en þá var Noregur með í hópnum, og að helmingi í eigu einkaaðila frá viðkomandi löndum.

Gengi bréfa félagsins hefur fallið um 40% í virði síðasta mánuðinn, en aðrir stórir hluthafar er stofnun Kunt og Alice Wallenberg með um 6,5% hlut, og sænski fjárfestirinn Gerald Engström sem á nærri 5% hlut, en aðrir eiga minna.

Fjármálaráðherra Danmerkur, Nicolai Wammen, sagði aðgerðina fyrsta skrefið og sagði hann ríkisstjórnir landanna ákveðnar í að tryggja viðgang flugfélagsins. Eins og Viðskiptablaðið sagði frá fyrir rúmri viku felldi félagið niður um 2.000 flugferðir vegna áhrifa veirufaraldursins á eftirspurn eftir flugi.

Í umfjöllun DR um málið segir að með útbreiðslu kórónaveirunnar Covid 19 hafi flugvellir víða um heim tæmst síðustu vikina, og sendi félagið um 10 þúsund, eða um 90% af starfsmönnum sínum heim á sunnudag. Þar af voru 4.000 af um 4.200 starfsmönnum félagsins í Danmörku sendir heim.