Greiningardeild Danske Bank hefur sent frá sér skýrslu sem spáir fyrir um í kjölfar þenslu og ofhitnunar muni bráðlega sjóða upp úr hér á landi og að óhjákvæmilegt sé að hagkerfið gangi í gegnum mikla efnahagslega lægð 2006- 2007.

Lars Christensen hjá Danske Bank segir að leiðréttingin verði erfið og ekki sé hægt að spá öðru en að lendingin verði hörð og óhjákvæmileg.

Lars segir að nauðsynlegt sé að horfast í augu við hlutina eins og þeir eru enda séu viðskiptavinir bankans nú farnir að hafa miklar áhyggjur af ástandinu á Íslandi.

Greiningardeild Danske Bank líkir ástandinu á Íslandi nú við aðstæður í Asíu áður en en kreppan mikla skall þar á árið 1997.

Þessi skýrsla Danske Bank kemur nú í kjölfarið á ótal svartsýnisspám greiningardeilda á borð við Credit Sights, Merill Lynch og Fich Ratings.

Skýrslur af þessu tagi hafa haft mikil áhrif á fjármálamarkaði hér á landi og á verð skuldatrygginga bankanna á evrópskum eftirmarkaði. Ekki er því ólíklegt að þessi skýrsla hafi svipuð áhrif.

Aðilar innan bankakerfisins hafa hingað til vísað allri umfjöllun á bug og hafa bæði Kaupþing banki og Landsbanki sent frá sér greinargerðir til að skýra stöðu sína og styrk í kjölfar þessarar miklu neikvæðu umfjöllunar.

Sigurður Einarson stjórnarformaður Kaupþings banka sagði til að mynda á aðalfundi Kauþings banka að þessi erlenda neikvæða umfjöllun um íslenskt efnahagslif og bankana væri stærsta ógnin sem íslensku bankarnir stæðu fyrir að gæti jafnvel leitt til þess að þeir þurfi að flytja af landi brott.