Það eru ekki bara danskir fjölmiðlar sem herja á Íslendinga því nú hafa danskar rottur einnig beitt sér gegn fjárfestingum Íslendinga í Danmörku.

Dönsk klóakrotta braut sér þannig leið í gegnum niðurfalli og inn í eldhús glæsilegasta hótels Danmerkur, Hótel D’Angleterre í hjarta Kaupmannahafnar.

Hótel D’Angleterre, sem að sjálfsögðu er fimm stjörnu hótel, er í eigu íslenskra fjárfesta, félagsins Nordic Partners, sem er að mestu í eigu Gísla Reynissonar.

Umhverfis- og fæðueftirlit Kaupmannahafnar lokaði eldhúsi hótelsins þegar í stað í sólarhring vegna heimsóknar dönsku rottunnar en heimsóknin er vart til þess fallin að auka arðsemi af hinni íslensku fjárfestingu.

Það var svo að sjálfsögðu vinablað Íslands númer 1, Ekstra Bladet, sem greindi frá málinu.