Danske Bank hefur yfir milljarðs dollara áhættu gagnvart hinum gjaldþrota fjárfestingabanka Lehman Brothers. Þetta kemur fram í tilkynningu til kauphallarinnar OMX í Kaupmannahöfn. Vaxta- og gjaldeyrisskiptasamningar ásamt ýmissa skuldabréfaviðskipta hefur verið lokað.

Danske Bank er einnig með samning tengdan 800 milljarða endurhverfum viðskiptum Lehman við Seðlabanka Bandaríkjanna. Danske Bank ber ábyrgð í þeim viðskiptum, en hefur jafnframt tryggingu í fasteignum, jafnt heimilum og atvinnuhúsnæði gegn ábyrgðinni. Sú trygging nær yfir rúmlega helming ábyrgðarinnar að nafnvirði.

Önnur slík ábyrgð er á öðrum endurhverfum viðskiptum upp á 300 milljónir dollara, en Danske Bank hefur tryggingu í fasteignalánum af miklum gæðum, eins og segir í tilkynningunni.

Danske Bank ráðgerir að heildartap vegna viðskipta við Lehman Brothers verði um 100 milljónir dollara. Þó er settur sá fyrirvari að eignaverð í Bandaríkjunum er afar viðkvæmt eins og stendur.