Danske Bank er orðinn einn af stærstu hluthöfum 5 fyrirtækja í Kauphöll Íslands. Fyrir viku var bankinn ekki á meðal 20. stærstu hluthafa þessara fyrirtækja, en í fyrradag var hann kominn í 10.-17. sæti hjá þessum fyrirtækjum, samkvæmt upplýsingum frá Markaðsvakt Mentis.

Danske Bank er 10. stærsti hluthafi í Exista [ EXISTA ] og Spron [ SPRON ] með 2% hlut í hvoru fyrirtæki. Bankinn er með 2,1% hlut í Glitni [ GLB ] og er 11. stærsti hluthafinn. Í Bakkavör [ BAKK ] á Danske Bank 0,9% hlut og er 16. stærsti hluthafinn. Í FL Group [ FL ] á bankinn 1,1% og er í 17. sæti á hluthafalistanum.

Óvenjulegt er að fjármálafyrirtæki komi svo sterkt inn á hluthafalista margra íslenskra fyrirtækja á sama tíma, ekki síst erlent fjármálafyrirtæki. Staða Danske Bank í þessum íslensku fyrirtækjum vekur ekki síst athygli fyrir það að einn af hagfræðingum bankans, Lars Christensen, hefur um árabil verið einn mest áberandi gagnrýnandi íslensks efnahagslífs og fjármálageira.