Danske Bank, sem er stærsti banki Danmerkur, skilaði hagnaði upp á 3,8 milljarða danskra króna eftir skatta á síðasta ári. Fjárhæðin jafngildir um 77 milljörðum íslenskra króna. Danska viðskiptablaðið Børsen greinir frá málinu.

Uppgjörið er í góðu samræmi við það sem greiningaraðilar höfðu búist við. Fyrir afskrift viðskiptavildar nemur hagnaður bankans 12,9 milljörðum danskra króna, en það er 82% aukning frá fyrra ári.

„Árið 2014 var ár mikilla framfara hjá Danske Bank. Við höfum einbeitt okkur að því að skapa verðmæti fyrir viðskiptavini okkar, sem hefur svo aftur hjálpað okkur að styrkja undirliggjandi starfsemi og afkomu bankans,“ segir Thomas F. Borgen, forstjóri Danske Bank, í yfirlýsingu um uppgjörið.

„Við eigum þó heilmikið eftir í því að ná öllum okkar markmiðum en þessi árangur sýnir að við erum á réttri leið.“