Danske Bank segist ekki vera eigandi hluta í fimm fyrirtækjum í Kauphöll Íslands, sem vb.is greindi frá í gær að bankinn væri kominn á hluthafalista hjá. Samkvæmt upplýsingum frá bankanum er hann á hluthafalistunum fyrir hönd viðskiptavina en ekki sem eigandi.

Eins og greint var frá í fyrrnefndri frétt birtist nafn Danske Bank skyndilega á listum yfir 20 stærstu hluthafa Bakkavarar [ BAKK ], Existu [ EXISTA ], FL Group [ FL ], Glitnis [ GLB ] og Spron [ SPRON ] í lok nýliðinnar viku. Þar var ennfremur bent á að óvenjulegt væri að erlend fjármálafyrirtæki kæmu svo sterkt inn á hluthafalista íslenskra fyrirtækja.