Greiningardeild Danske bank byrjar greiningu sína um áhrif Icesave-dómsins á því að óska íslensku þjóðinni til hamingju með niðurstöðuna og segir svo að hún hafi komið sérfræðingum á óvart, sem hafi flestir spáð íslenska ríkinu tapi í málinu.

Almennt séð er niðurstaðan jákvæð fyrir íslenska hagkerfið að mati Danske bank. Í fyrsta lagi vegna þess að íslenska ríkið þarf nú ekki að greiða umtalsverða fjárhæð til Hollendinga og Breta, en talað var um allt að 335 milljarða króna greiðslu. Í öðru lagi sé umtalsverðri óvissu eytt um fjármál íslenska ríkisins og um íslenska hagkerfið almennt

Greiningardeild Danske Bank segist hafa verið bjartsýn á horfur fyrir íslenskt efnahagslíf og að enginn vafi sé á um að niðurstaða dómsins muni hjálpa til við endurreisn hér á landi. Gerir greiningardeildin því ráð fyrir því að bjartsýni muni aukast til muna hjá íslenskum neytendum og fyrirtækjum. Þá eigi niðurstaðan að flýta afnámi hinna harkalegu gjaldeyrishafta, svo notað sé orðfæri greiningardeildarinnar.