Eistnesk yfirvöld hafa skipað Danske Bank að loka útibúi sínu í Tallinn, höfuðborg landsins, fyrir árslok, vegna umfangsmikils peningaþvættismáls sem varðaði útibúið.

Forstjóri Fjármálaeftirlits Eistlands sagði stofnunina hafa fullan rétt á að binda endi á starfsemi bankans fyrir fullt og allt, þar sem viðamikil lögbrot hefðu átt sér stað, sem hefðu valdið orðspori fjármálamarkaða landsins ómældum skaða.

Peningaþvættismálið, sem varðar upphæð sem samsvarar um 28 þúsund milljörðum íslenskra króna, hefur dregið mikinn dilk á eftir sér. Bankastjórinn, Thomas Borgen, sagði af sér vegna málsins í september síðastliðnum, og stjórnarformaðurinn var settur af í nóvember. Þá hefur alþjóðlegt bandalag öflugra lögmannsstofa hafið undirbúning að lögsókn .

Jesper Nielsen, sem var ráðinn tímabundið sem framkvæmdastjóri í kjölfar afsagnar Borgen, sagði bankann myndu fara að fyrirmælum yfirvalda í Eistlandi, og auk þess yrði starfsemi bankans í Lettlandi, Litháen og Rússlandi að mestu lögð niður.