Verðbréfagreining Danske Bank reiknar með því að danski bjórframleiðandinn Royal Unibrew, sem er að hluta til í eigu FL Group, kaupi fleiri fyrirtæki í Póllandi á næstunni, en Viðskiptablaðið greindi frá því á föstudaginn að félagið hefur samþykkt að kaupa pólska brugghúsið Browar Lomza fyrir 240 milljónir danskra króna (2,8 milljarða íslenskra króna).

"Þar sem Royal Unibrew hafði áður gefið til kynna yfirtökur á árinu 2007 og félagið þarf að auka tekjur sínar með yfirtökum til að standast markmið sín, kom þessi yfirtaka (kaupin á Browar Lomza) okkur ekki á óvart," segir í stuttri greiningarnótu frá Danske Bank. "Kaupin eru í takt við áætlanir Royal Unibrew um að tekjur félagins verði 4,5 milljarðar danskra króna (53 milljarðar íslenskra króna) á árinu 2007. Eitthvað af þessum tekjum verður að koma með yfirtökum," segir Danske Bank.

Verðbréfagreining Danske Bank segir einnig að kaupverðið sé í takt við margfaldara Royal Unibrew. Samvæmt upplýsingum frá danska bankanum var heildarakaupverð 270 milljónir danskra króna, en skuldir Browar Lomza nema 30 milljónum danskra króna. Bankinn reiknar því út að heildarkaupverðið sé 8,7 sinnum hagnaður Royal Unibrew fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta (EBITDA). Ef horft er einungis til hagnaðar fyrir fjármagsnliði og skatta (EBIT) er heildarkaupverðsmargfaldarinn 15,9 sinnum EBIT.

"Ef við reiknum með sjö milljónum danskra króna vegna samlegðaráhrifa á árinu 2009 og 5% EBIT-vexti á sama ári, verður heildarkaupverðsmargfaldarinn tíu sinnum EBIT. Í fyrstu virðist fyrirtækið því ekki dýrt, en kaupverðið er ekki frábært heldur," segir Danske Bank.

FL Group á 24,4% hlut í Royal Unibrew, en atvæðisréttur félagsins er þó einungis 10%. Fyrirtækið hefur komið á framfæri þeirri ósk sinni að samþykktum félagsins verði breytt svo FL Group geti notið atkvæðavægis í samræmi við eignarhlut sinn. Stjórnarformaður Royal Unibrew er tilbúinn að skoða breytingar á reglum félagins um atkvæðisrétt en ákvörðun um breytingar liggur þó ekki fyrir enn.