Það er víðar en bara á Íslandi sem fasteignaverð hækkar þessi misserin. 12 mánaða hækkunin á verði sérbýlis í Danmörku nam 7% í maí og á sama tíma hækkaði verð fjölbýlis um 10,6%. Stígandinn í íbúðaverði í Danaveldi hefur verið sérstaklega hraður síðustu mánuði. Verð sérbýlis hækkaði um 2,1% í maímánuði einum saman, og verð fjölbýlis um 0,7%.

Børsen hefur eftir Ane Arnth Jensen hjá Realkreditrådet að verðhækkun íbúða geri það að verkum að að nafnvirði sé íbúðaverð næstum jafn hátt og það var áður en eignabólan í Danmörku sprakk. Að raunvirði er íbúðaverð þó enn um 16% lægra en það var á hápunkti sínum 2006. Jensen segir einnig að veltan á markaðnum hafi ekki verið meiri síðan á því ári.

Joachim Borg Kristensen, húsnæðishagfræðingur hjá Nykredit segir að enginn vafi sé á því að hröð verðhækkun íbúðarhúsnæðis orsakist að hluta til af góðum kjörum á íbúðarlánum.

Sérfræðingurinn Mikael Olaf Milhøj hjá Danske Bank segir við Børsen að það hafi lengi verið umdeilt hvort bóluástand væri á danska fasteignamarkaðnum. „Húsnæðisverð gætu lækkað eftir nokkur ár þegar vaxtastigið nær jafnvægi. Það er því nauðsynlegt fyrir neytendur að kaupa ekki of dýrar íbúðir og gæta þess að hafa svigrúm í heimilisbókhaldinu,“ segir Milhøj.