ATP, stærsti lífeyrissjóður Danmerkur, hagnaðist um 125 milljarða danskra króna, jafnvirði rúmra 2.700 milljarða íslenskra króna. Þetta er methagnaður í sögu lífeyrissjóðsins og jafngildir því að eigið fé sjóðsins hafi aukist um fjórðung á milli ára.

ATP sankaði að sér hlutabréfum í stoðtækjafyrirtækinu Össuri árið 2010 en hlutabréf fyrirtækisins voru skráð á markað þar í landi í september 2009.

Lars Rohe, forstjóri ATP, segir í samtali við danska viðskiptablaðið Börsen, afkomuna skýrast af góðri en öruggri eignastýringu og dreifðri áhættu í fjárfestingum.

Eignir ATP námu í lok síðasta árs 579 milljörðum danskra króna samanborið við 475 milljarða ári áður.

Í uppgjöri sjóðsins kemur fram að hver sjóðsfélagi eigi að meðaltali 122 þúsund danskar krónur í sjóðnum, jafnvirði tæpra 2,7 milljóna íslenskra króna.

Sjóðurinn er gullkýr fyrir danska ríkið en hann greiddi 18 milljarða danskra króna, tæpa 400 milljarða íslenskra króna, í fjármagnstekjuskatt í fyrra.