Þann 6. október verður ár liðið frá því Nyhedsavisen í Danmörku, systurblað Fréttablaðsins íslenska, hóf göngu sína. Danska viðskiptablaðið Börsen fjallar í gær um rekstur þess á liðnu ári og segir blaðið enn eiga langt í land með að ná mörgum upprunalegum markmiðum sínum og koma rekstrinum í það horf sem íslensku fjárfestarnir stefndu að. Börsen segir að aðstandendur Nyhedsavisen standi enn á því föstum fótum að upprunalega "viðskiptamódelið" sé rétt og muni skila sér, þ.e. að ná til lesenda og auglýsenda með því að dreifa blaðinu í hús, líkt og þekkist með Fréttablaðið hérlendis.


Gunnar Smári Egilsson, forstjóri Dagsbrúnar Media, segir að sá árangur sem náðst hefur á þessum tíma standist vel væntingar. "Við ætluðum okkur að verða stærsta blaðið í Danmörku og erum nú komnir í þriðja sætið, með 503 þúsund lesendur. Við erum nú orðin stærri en öll áskriftablöðin, bæði Berlingske Tidende og Politiken," segir Gunnar Smári .Sven Dam, forstjóri 365 Media Scandinavia, sem gefur Nyhedsavisen út, segir í viðtali við Börsen að sá munur sé á, að keppinautar blaðsins hafi aldrei trúað á hugmyndina sem að baki býr. Það geri aðstandendur Nyhedsavisen hins vegar.