Seðlabanki Danmerkur, Nationalbank, tilkynnti í dag 25 punkta hækkun útlánavaxta og eru vextir bankans nú 3,25%, með hækkuninni viðheldur seðlabankinn 25 punkta forskoti á vaxtaprósentu evrópska seðlabankans, segir í frétt Dow Jones, en evrópski seðlabankinn tilkynnti hækkun stýrivaxta í 3% fyrr um daginn.

Danski seðlabankinn hækkaði einnig forvexti úr 2,75% í 3% og gaf upp hækkun evrópska seðlabankans sem ástæðu þess, segir í fréttinni.

Hækkun danska seðlabankans var fyrirséð, þar sem bankinn hefur yfirleitt ákvarðað vaxtahækkanir í samræmi við hækkanir evrópska seðlabankans og þannig tryggt stöðu dönsku krónunnar gagnvart evrunni, segir í fréttinni.

Varað hefur verið við ofþenslu efnahags Danmerkur, en verg landsframleiðsla jókst um 3,4% árið 2005 og hefur það leitt til aukins atvinnuleysis og aukinna launakrafa, segir í fréttinni.

Peter Skoettegaard, hagfræðingur Jyske Bank, segir að vaxtahækkunin sé af hinu góða þar sem hún muni losa um atvinnumarkaðinn, stemma stigu við ofþenslu fasteignamarkaðarins og hafa fyrirbyggjandi áhrif gegn mögulegri ofþenslu efnahags Danmerkur.