Berlingske Tidende greinir frá því að forystumenn dansks viðskiptalífs séu ekki lengur í framvarðasveit þeirra sem krefjast upptöku evrunnar þar í landi, en til skamms tíma hafa raddir um slíkt verið háværar í dönsku viðskiptalífi. Byggir blaðið frétt sína á niðurstöðum könnunar Sentio Research Sverige um afstöðu stjórnanda stærstu fyrirtækja Danmerkur til evrunnar.

Alls voru 600 stjórnendur spurðir og töldu 30% þeirra að það yrði „gott“ eða „mjög gott“ fyrir Danmörk að taka upp evruna sem gjaldmiðil. Hins vegar töldu 52% að það myndi engu skipta og afgangurinn að þeir hefðu annað hvort ekki gert upp hug sinn til málsins eða að evran væri beinlínis skaðleg Danmörku.

Anders Fogh Rasmussen, forsætisráðherra Danmerkur, hefur tilkynnt að efnt verði til kosninga í Danmörku síðar á þessu ári um upptöku evrunnar. Í samsvarandi þjóðaratkvæðagreiðslu árið 2000 lýstu 53,1% danskra kjósanda sig andvíga því að evran leysti dönsku krónuna af hólmi.