Breska lyfjafyrirtækið GlaxoSmithKline hefur samþykkt að aðstoða danska lyfjafyrirtækið Genmab við þróun og markaðssetningu á nýju tilraunalyfi við hvítblæði, en samningur fyrirtækjanna er í bígerð og er metinn á 145 milljarða króna, segir í frétt Dow Jones.

GlaxoSmithKline mun kaupa 10% hlut í Genmab og greiða því leyfisgjöld og aukagreiðslur ef ákveðin niðurstaða fæst við þróun lyfsins.

Greiningaraðilar segja að nýja lyfið, HuMax-CD20, sé eitt stærsta verkefni sinnar tegundar í Evrópu og hefur því Genmab verið talið álitlegur kostur til yfirtöku.

Hlutabréf Genmab hækkuðu um 14% í gær eftir að fréttir af samningnum bárust.