Í gærkvöld var sýnd í danska ríkissjónvarpinu heimildarmynd þar sem staðhæft var að peningar danska ríkisins hefðu runnið til Norður-Kóreu og að verkamenn frá landinu hefðu smíðað varðskipið Lauge Koch.

Peningarnir voru sagðir hafa farið í gegnum Pólland, þar sem skipasmíðastöðin Crist í Gdynia er staðsett, til fyrirtækisins Rungrado, sem er í eigu yfirvalda í norður kóreska kommúnistaríkinu að því er fram kemur í Morgunblaðinu.

Fyrirtækið hefur tekið þátt í fjármögnun á kjarnorkuáætlunum alræðisríkisins með tekjum af verkamönnum sem sendir eru til annarra landa. Jafnframt virðist sem fjöldi norskra skipa séu smíðuð af norður kóreskum verkamönnum, en umrædd skipasmíðastöð smíðar nú nýjan Herjólf sem koma á hingað til lands á næsta ári.