Danski auðmaðurinn Karsten Ree tapar rúmum 100 milljónum danskra króna, jafnvirði rétt rúmra tveggja milljarða íslenskra króna, á gjaldþroti danska flugfélagsins Cimber Sterling í vikunni. Danska viðskiptablaðið rifjar upp að auðmaðurinn keypti 11% hlut í félaginu þegar það var skráð á markað árið 2009. Það hafi kostað hann um 55 milljónir danskra króna. Hálfu ári síðar hafi hann keypt hlutabréf í flugfélaginu fyrir 4,1 milljón til viðbótar.

Áður en Cimber Sterling fór í þrot kom auðmaðurinn til bjargar og lánaði hann því 50 milljónir danskra króna.

Börsen segir að nú þegar ljóst sé að reksturinn sé kominn í þrot séu ekki líkur á að hann endurheimti féð.

Karsten átti auglýsingablaðið Den Bla Avis en seldi það fyrir tvo milljarða danskra króna árið 2008. Karsten keypti flugvélar Sterling eftir að fyrirtækið fór í þrot haustið 2008 og bættist þá Sterling-nafnið við heiti Cimber.

Börsen rifjar upp að gjaldþrot Cimber Sterling er ekki eina fjárfesting Karsten Ree sem fer illa eftir hrunið. Því til viðbótar lagði hann 850 milljónir danskra króna til Amager-banka í því augnamiði að bjarga honum frá þroti haustið 2009. Bankinn fór hins vegar endanlega á hliðina fyrir rétt rúmu ári og útlit fyrir að féð skili sér ekki aftur í vasa Ree.

Heildartap hans þessu samkvæmt nemur rúmum 950 milljónum danskra króna, rúmum 20 milljörðum íslenskra króna.